Rok, annríki og uppgötvun

Hvað er málið með þetta bévítans rok alltaf hreint ? Það virðist alltaf vera rok, bara mismikið rok, allt frá pínu roki upp í ferlegt rok þar sem maður blaktir eins og fáni ef maður vogar sér út fyrir hússins dyr.  Svo eins og það sé ekki nóg þá er kalt í dag og hlýtt á morgun, snjór núna, svo hláka og þá er komið fljúgandi manndrápshálka.  Það er einhver ótíndur afleysingamaður á veðurgræjunni og hann hefur ekki hugmynd um hvað hann er að gera, hvað þá að hann kunni á græjuna.

 Hér hefur ýmislegt gengið á síðustu daga,  byrjaði á þriðjudaginn þegar eitt tryppið var horfið úr hópnum, kallarnir drifu sig út í leiðinlegu (en ekki hvað) veðri að leita, þeir voru við það að gefast upp þegar hann loksins fannst í gjótu, fremur illa á sig kominn og örmagna af þreytu og kulda, enda hafði nóttina áður verið 18 stiga frost í sveitinni.  Með samstilltu átaki véla og manna náðist hann upp og hægt var að koma honum í hús, kallaður út dýralæknir og við tók hjúkrun með öllu tilheyrandi, allt skyldi gert til að koma honum á lappir aftur, en allt kom fyrir ekki, í gærmorgun kvaddi hann.  Hefur að öllum líkindum rifið svona illa lærvöðvann og sjálfsagt eitthvað fleira, komið drep í það og blóðeitrun.  Við reyndum þó, sátum yfir honum á vöktum allan sólarhringinn, héldum á honum hita og gáfum honum sykurvatn og alls kyns seyði og reyndum að láta fara eins vel um hann og hægt var.

Þennan sama þriðjudag fóru börnin í skíðaferð til Akureyrar og hvað haldiði, heimasætan kom með einn fingur í spelku heim, illa tognuð ..... stórhættulegt, útivera og íþróttir !!

Ég hef gert stórmerkilega uppgötvun, leti er EKKI banvæn, allavega ekki bráðdrepandi, hugsanlega veldur hún hægum dauðdaga, það mál er enn í athugun.  Ég sem var svo handviss að þetta væri bráðdrepandi ástand, svo er ekki.  Það breytir ekki þeirri staðreynd að ég er illa hrjáð af leti, ekki frá því að það fylgi þessu töluverðir verkir líka.  Svo virðist að því meira sem ég þyrfti að gera, því ákafari verða einkenni letinnar.  Skrítið, og á meðan á þessu stendur er ég með annað mál í athugun og það er að kanna hversu langt þarf að líða áður en hnoðrarnir í hornunum öðlist líf og flytji að heiman, nógu hratt stækka þeir.

Er að spá í að smella mér í smá sólarferð í haust, held það veiti ekkert af, kannski maður bregði sér bara til Tyrklands, prófi hvernig það sé.

Svo er ég afar spennt núna vegna þess að líkurnar á að hægt verði að láta drauminn rætast aukast sífellt svo það er aldrei að vita nema maður flytji sig um set í haust (tímabundið þó) kemur allt í ljós þegar líður fram á vorið.

Nú er ég að hugsa um að hvíla mig smá  og sjá svo til hvort ég skelli í eina vél eða svo, jafnvel að maður skveri af eins og einni ritgerð, því það veit sá sem allt veit að ekki veitir af ef maður á að ná sér á rétt ról í því öllu.

Later,

Lafðin


Ekkert ferðaveður

Hér í sveitinni, eins og víðar um land er ekta Íslenskt skítaveður, gengur á með dimmum éljum og tilheyrandi jukki.  Ekkert ferðaveður sagt á Mývatnsheiðinni, þar er þæfingsfærð og óveður, ófært hefur verið í Víkurskarðinu í allan dag.  Ekta dagur til að kúra sér heima við undir teppi og una sér við lestur góðra bóka eða að þjálfa sellurnar í því sem þær virðast bestar í .... engu.

Að sjálfsögðu er þá ekki nema helmingur heimilismeðlima innandyra, heimasætan ákvað að best væri (þar sem ekkert ferðaveður er) að skreppa á Tónkvísl sem haldin er í kvöld á Laugum .... sniðugt .... og ákjósanlegasti fatnaðurinn í þessa ferð var að hennar mati kvartbuxur FootinMouth ....  og karluglan ákvað að fara með annari dómgreindarskertri karluglu inná Akureyri .... enn sniðugra

Hundarnir nánast neita að fara út að gera þarfir sínar, en tvífætlingarnir drifu sig á rúntinn !  Geggjað. 

Hvað ætli valdi þessari þörf að vera utandyra þegar skítaveður geysar ?  Sérstaklega er það karlpeningurinn sem virðist fá einhvern fiðring, aðallega í skófluhöndina, þegar veður versnar.  Vita menn ekki að þegar svona er á maður ekki að fara út fyrir hússins dyr, kveikja bara upp í arninum og hafa það kósí, það þarf að kenna körlum að það er í lagi að hafa það kósí og hvað felst í því.  Það er ekkert kósí við að sitja pikkfastur í einhverjum skafli þar sem skyggni er ekkert, standa svo í skaflinum, eða blakta eins og fáni með skófluna, að reyna að moka drusluna upp í einhverjar klukkustundir.  Það er heldur ekkert kósí að liggja svo með lungnabólgu og harðsperrur í öllum mögulegum vöðvum.

Ég ætla bara að kúra mér í stólnum og hafa það notalegt meðan þau berjast við veðurguðina.

Lafðin


Blygðunarkenndin

Það er ýmist í ökkla eða eyra.  Hvað gerðist eiginlega, ekkert má sjást, þá er blygðunarkennd einhvers særð, hvað er með alla þesa ofurviðkvæmni.  Hvort sem það er bæklingur Smáralindar eða kókauglýsing þá fara menn (konur eru líka menn) á límingunum.  Segir það ekki meira um þankagang viðkomandi heldur en bæklingin, nú eða auglýsinguna.

Hvaða ofbeldi telur viðkomandi að þessi auglýsing stuðli að ?

Púrítanskur hugsanaháttur kominn út í öfgar að mínu mati, allir að drífa sig í jóga og slaka svolítið á.


mbl.is Auglýsingaspjald talið særa blygðunarkennd viðskiptavina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að verða stór.

Hvenær verður maður stór ?

Alltaf er maður að velta því fyrir sér hvað maður ætli að verða þegar maður verður stór, það er ég búin að gera núna í fleiri ár en ég kæri um að muna.  Ég dáist að þeim sem vita strax á unga aldri hvað þeir vilja verða þegar þeir vaxa úr grasi.

Ég ætlaði náttúrulega, eins og svo margar stelpur, að verða búðakona, bankakona o.þ.f.e.g. og ekki má gleyma æskudraumnum, að verða bóndi, ég ætlaði n.b. ekki að verða bóndakona, heldur bóndi og svo myndi ég eiga bóndamann.  Feminismi kannski ?  Svo óx maður úr grasi og búðakona varð ekki svo spennandi tilhugsun lengur, þá fór málið að vandast, sífellt færðist ég nær því að verða stór, en ekkert gerðist, alveg blank, hafði ekki hugmynd, svo bættist við að á unglingsárunum var áhugi fyrir skólagöngu takmarkaður og árangurinn eftir því. 

Svo liðu fáein ár og maður fór í að stofna fjölskyldu og allan þann pakka, aldrei fór þó tilhugsunin um að "verða eitthvað þegar ég yrði stór" langt og sífellt varð ég meðvitaðri um að nú væri stutt í að ég yrði stór.  Málið var ekki endilega að mig langaði ekki að læra eitthvað ákveðið, en búsetu og fjölskyldumál flæktu þetta sífellt svo ekki varð neitt úr neinu.  Nú stend ég frammi fyrir því að annar unginn fer úr hreiðrinu í haust og ef það er ekki ágætis mælikvarði á stærð þá er ég illa svikin.

Svo þannig standa málin núna, ég er orðin stór, en ekki orðin neitt ! Það er tvennt sem hefur fylgt mér í gegnum árin, þ.e. tvennt sem ég gæti hugsað mér að læra og vinna við eeen..... annað er eingöngu kennt erlendis, týpískt, og hitt er kennt í fleiri hundruð km fjarlægð og ég hef, eins og allir með fjölskyldu, ákveðnum skyldum að gegna, ég á son sem enn á fjögur ár í grunnskóla, ég er með hunda, mann, hesta, heimili .... og svo situr í mér ... er ég orðin of gömul, er ég orðin of gömul til að læra það sem mig langar að læra, of gömul til að vinna við það, er ég of eigingjörn ef ég dríf í því, hvað þá með barnið, hundana, mannin, heimilið o.s.frv.

Er ég kannski bara of flækt ??


Bloggheimur

Jæja, þá er maður kominn í hóp moggabloggara, hóp sem sífellt fer stækkandi.

Hvað ætli valdi því að sífellt fleiri blogga ....  nýjungagirni kannski, þörfin að tileinka sér allar nýjungar sem spretta fram eða kannski er þetta bara athyglissýki.  Hvað um það ....

 ég er ein af þeim og stolt af því, er þó ekki duglegasti ritarinn svo ég stórefa að ég nái þeim hörðustu, þeim sem rita hér margar færslur á dag, sumir eru þannig að á mbl.is má ekki koma ný frétt nema um hana sé ritað á bloggi viðkomandi .... ótrúleg elja, ja eða viðkomandi á sér nákvæmlega ekkert ..... ekki mitt svo sem að velta vöngum yfir því, þið getið bara í eyðurnar.

Látum þeirri fyrstu lokið ....


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband