Mótmælastaða

 

 Kæru sveitungar

 

Við erum persónur, hópur, heild sem Íslendingar.  Á þeim forsendum og á þeim lýðræðislega rétti sem okkur er gefinn, hafa nokkrir einstaklingar ákveðið að efna til mótmælastöðu í þögn laugard. 17.jan. í okkar heimabyggð í Mývatnssveit.  Fjöldi mótmælenda eða stærð byggðarlags skiptir hér ekki máli.  Raddir fólksins þurfa að heyrast sem víðast.

 

Mótmæli hafa lítil áhrif ef vindurinn einn er til vitnis.  Þess vegna höfum við sent fjölmiðlum orðsendingu (frétt) fyrir fundardag og önnur verður send eftir fundinn.  Á þann hátt munu valdhafar í grafarþöfn og sjálfsafneitun, spillingarmenn og þjófar eigna og fjármagns saklausra borgara, fá skýr skilaboð.  Þá komast þeir ekki upp með að setja þagnarsultu og súran rjóma á sínar flatneskjulegu ráðleysispönnukökur alla daga.  Þeir sem hafa áhuga á að leggja málinu lið eru hjartanlega velkomnir.

 

Að okkar mati eru nokkrir valkostir í stöðu Íslands í dag:

 

Að þegja, sitja heima og samþykkja þannig ástandið.

Að blístra fallegt lag og yppta öxlum í takt.

Að taka því sem að höndum ber.

Að standa upp og segja: "Vér mótmælum öll".

 

Staðsetning mótmælanna verður á landi ríkisins, á bílastæðinu við Dimmuborgir. Tími 15:00 laugard. 17.jan.

 

Ath.  Í upphafi fundar gefst kostur á að kasta (gúmmí)skóm í táknmynd spillingarinnar, hugleysis og vesældóms ráðamanna.  Losa um reiðina Joyful

Á eftir þessum gjörningi verður þagnarstaða í 5-10 mín.

Snjallræði er að taka með sér heitt á brúsa og afgang af jólabakstri.

Kveðja,

Fyrir hönd hópsins.  Ólafur Þröstur. 

 

  Þessi tilkynning datt hér inn um lúguna í dag og er ég fyrir mitt leiti alsæl með að einhver hafi tekið af skarið og komið þessu á og mun að sjálfsögðu taka fullan þátt í þessari vakningu. Því skelli ég þessu hér á þennan vettvang.

Er svo á leið í byltingakaffi síðar í dag ...

 Lafðin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Gott að heyra Vona að sveitungar þínir fjölmenni á mótmælin!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.1.2009 kl. 22:17

2 Smámynd: Lafðin

Það vona ég líka.  Mikilvægast er að raddir okkar heyrist sem allra víðast.  Hef trú á að nú fari að bætast inn fleiri byggðarlög og punktunum á landakortinu að fjölga og í kjölfarið eykst þrýstingurinn á stjórnvöld að hlusta !

Lafðin, 16.1.2009 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband