Rok, annríki og uppgötvun

Hvað er málið með þetta bévítans rok alltaf hreint ? Það virðist alltaf vera rok, bara mismikið rok, allt frá pínu roki upp í ferlegt rok þar sem maður blaktir eins og fáni ef maður vogar sér út fyrir hússins dyr.  Svo eins og það sé ekki nóg þá er kalt í dag og hlýtt á morgun, snjór núna, svo hláka og þá er komið fljúgandi manndrápshálka.  Það er einhver ótíndur afleysingamaður á veðurgræjunni og hann hefur ekki hugmynd um hvað hann er að gera, hvað þá að hann kunni á græjuna.

 Hér hefur ýmislegt gengið á síðustu daga,  byrjaði á þriðjudaginn þegar eitt tryppið var horfið úr hópnum, kallarnir drifu sig út í leiðinlegu (en ekki hvað) veðri að leita, þeir voru við það að gefast upp þegar hann loksins fannst í gjótu, fremur illa á sig kominn og örmagna af þreytu og kulda, enda hafði nóttina áður verið 18 stiga frost í sveitinni.  Með samstilltu átaki véla og manna náðist hann upp og hægt var að koma honum í hús, kallaður út dýralæknir og við tók hjúkrun með öllu tilheyrandi, allt skyldi gert til að koma honum á lappir aftur, en allt kom fyrir ekki, í gærmorgun kvaddi hann.  Hefur að öllum líkindum rifið svona illa lærvöðvann og sjálfsagt eitthvað fleira, komið drep í það og blóðeitrun.  Við reyndum þó, sátum yfir honum á vöktum allan sólarhringinn, héldum á honum hita og gáfum honum sykurvatn og alls kyns seyði og reyndum að láta fara eins vel um hann og hægt var.

Þennan sama þriðjudag fóru börnin í skíðaferð til Akureyrar og hvað haldiði, heimasætan kom með einn fingur í spelku heim, illa tognuð ..... stórhættulegt, útivera og íþróttir !!

Ég hef gert stórmerkilega uppgötvun, leti er EKKI banvæn, allavega ekki bráðdrepandi, hugsanlega veldur hún hægum dauðdaga, það mál er enn í athugun.  Ég sem var svo handviss að þetta væri bráðdrepandi ástand, svo er ekki.  Það breytir ekki þeirri staðreynd að ég er illa hrjáð af leti, ekki frá því að það fylgi þessu töluverðir verkir líka.  Svo virðist að því meira sem ég þyrfti að gera, því ákafari verða einkenni letinnar.  Skrítið, og á meðan á þessu stendur er ég með annað mál í athugun og það er að kanna hversu langt þarf að líða áður en hnoðrarnir í hornunum öðlist líf og flytji að heiman, nógu hratt stækka þeir.

Er að spá í að smella mér í smá sólarferð í haust, held það veiti ekkert af, kannski maður bregði sér bara til Tyrklands, prófi hvernig það sé.

Svo er ég afar spennt núna vegna þess að líkurnar á að hægt verði að láta drauminn rætast aukast sífellt svo það er aldrei að vita nema maður flytji sig um set í haust (tímabundið þó) kemur allt í ljós þegar líður fram á vorið.

Nú er ég að hugsa um að hvíla mig smá  og sjá svo til hvort ég skelli í eina vél eða svo, jafnvel að maður skveri af eins og einni ritgerð, því það veit sá sem allt veit að ekki veitir af ef maður á að ná sér á rétt ról í því öllu.

Later,

Lafðin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband